Sunday, February 23, 2014

Avacado samloka að hætti Joe & juice.

Ég fór um daginn á Joe & juice og bað Juice-bag-inn sem var að vinna þar að velja fyrir mig hádegisverð. Hann klikkaði svo sannarlega ekki og fékk ég svo guðdómlega samloku þar, sem ég ákvað að reyna að leika eftir - svona í tilefni konudagsins.

Ég uppgötvaði eftir rölt í búðina að það væri ekki til basillikka í kaupfélaginu þannig að ég varð að spila eftir eyranu.

Hráefni:
Fitty brauð
Mozarella ostur
Tómatur
Spínat
Hvítlaukspesto (grænt)
Avacado.

Kryddblanda:
Ítölsk kryddblanda (McCormick)
Basilliku krydd (Pottagaldrar)
Maldon salt
Olive olía

Ég byrjaði á því að rista brauðið og skar á meðan niður tómatana, avacado-ið og mozarella ostinn í þunnar sneiðar. Ég gjörsamlega elska avacado - eflaust útaf því það er kaloríumesti ávöxturinn. Story of my life.

Ég blandaði svo msk af olíu saman við smá slettu af salti, smá af basiliku kryddi og smá af ítalskri kryddblöndu og smurði "ytri" hliðarnar á brauðinu (s.s. þær hliðar sem snúa út á samlokunni).

Því næst smurði ég pesto á brauðið, raðaði svo spínatinu, mozarella ostinum tómötum og avocado-inu þar ofaná.

Mmmmmmmm.

Pakkaði svo samlokunni inní bökunarpappír, þrýsti á samlokuna og stillti ofnin á hæsta styrk og setti inní ofn á blástur í 3-5 mínútur.

Fékk mér ferskan appelsínusafa með þessu og get ekki annað sagt en að ég sé brjál sátt með þetta. Og rúmlega það. Ég meina hver þarf mann til að dekra við mann þegar maður hefur avacado ?


Mæli með að prófa - því þetta er klikk gott !



Tuesday, January 28, 2014

Kínóa með mango, svörtum baunum og rauðlauk

Kínóa kynntist ég þegar ég fór á námskeið hjá Heilsumömmunni sem var haldið í fyrra. Ég tók fullt af sniðugri vitneskju með mér heim sem ég hef nýtt mér óspart.

Upplýsingar um kínóa er t.d. hægt að fá hér á vefsíðu Transform en þar kemur fram að það er stútfullt af allskonar góðu fyrir okkur. Sterkja, sem finnst í grjónum og kartöflum er auka kolvetni sem ég hef ekkert við að gera og reyni ég að forðast hana að mestu. Nema þegar ég er auðvitað í ruglinu og ét til að gleyma.

Það er hægt að útfæra kínóa á allan mögulegan hátt og hef ég verið óhrædd við að setja allt sem til er í ískápnum útí til að djúsa það aðeins upp.

Í þetta skiptið nota ég uppskrift sem ég lærði á námskeiðinu góða. Svona að mestu leiti.

Kónóa:

2. dl kínóa - lagt í vatn í 30 mín eða lengur. Fínt að setja yfir nótt en þar sem ég gleymi því alltaf - þá     læt ég hálftíman duga.
1 dl. mangó, skorið í bita.
1 dós svartar baunir.
1 rauðlaukur
Grænmetiskraftur
Kúmen

Fyrst er blessað kínó-aið lagt í bleyti. Þeir sem eru skipulagðir leggja það í bleyti snemma. Ég yfirleitt gleymi því alltaf. Og læt það vera í köldu vatni í hálftíma. Við það að vera í köldu vatni þá skolast af því húðin sem er á því og það belgist út.

Því næst er það sigtað og sett í pott með tvöföldu magni af vatni. (4 dl vatn á móti 2 dl kínoa)


Látið sjóða í svona ca. 30 mín. Ég bæti eiginlega alltaf 1 dl að vatni til viðbótar. Grænmetisteningurinn og kúmenið (ca 1. tsk samt bara eftir smekk (smakka!!)



Þegar það er soðið er það sett í ísskáp til kælingar (það er líka mjög gott að vera með það     heitt, en magnó-ið verður svo fönkí ef maður kælir það ekki). Ef ég væri með spínat og lauk t.d. væri ég með það heitt.


Svörtu baunirnar skolaðar úr dósinni (hægt að kaupa líka sem maður leggur í bleyti). 


Allt jukkið tilbúið til að fara útí kínó-aið


Mixað og fínt. 


Kryddaði kjúklinginn með þessari baneitruðu og góðu blöndu. 


Borið fram með grænkáli og tómötum. Kreisí gott! 


Og þetta er brjál gott daginn eftir og daginn eftir það og einn til viðbótar!! Fínt að borða í hádeginu með einhverju grænmeti útí eða side diskur með harðsoðnum eggjahvítum eða hvað sem hugurinn girnist! 

Bon appetit!




Monday, January 6, 2014

Rise of the fallen

Hvernig getur verið liðið næstum því ár verið liðið frá síðustu færslu ? Ótrúlegt.

Það sýnir kannski hversu "aktvív" ég hef verið í ræktinni og matarræðinu. Hef haldið mig svona réttum megin í lífinu, með hálfan rassinn í ræktinni - borða semi hollt en er ekkert að stressa mig of mikið á mistökum. Tók nokkra mánuði í fjarþjálfun hjá Valgeir Gauta síðasta sumar og náði frábærum árangri. Ég er byrjuð aftur á lyftingarprógraminu frá honum.

Jólin voru æði þar sem hápunkturinn var kalkúnninn sem Guðjón vinur minn eldaði hérna í árlegu matarboði sem ég held. Annars var gætt sér á hamborgarhrygg, hægelduðum nautalundum, nóg af graflaxi og alltof mikið af súkkulaðimús.

Fyrir konu sem nægir að horfa á rauða kók til þess að fitna. Þá er eins gott að breyta þessu hið snarasta.

Árið 2014 er tíminn til að hrista uppí þessu og koma sér af stað á ný.

Ég dældi áðan inn fullt af hollum hugmyndum af mat á borð sem ég var að búa til á Pinterest, sjá hér.

Nú er það bara fulla ferð áfram eða, eins og ég ætla að tagga instagram færslurnar mínar af matnum sem ég er að brasa, #letsdothis

Þið finnið mig á pinterest undir www.pinterest.com/mariaeinarz

Þið finnið mig á instagram undir maria_einarz

Þið finnið mig á twitter á gamla netheimanafni mínu twitter.com/majae

Komið að leika !

En yfir í alvöruna....



Í kvöld borðaði ég mat sem er rosalega oft hérna á virkum dögum. Syni mínum til mikillar ánægju.

Ég bakaði kjúklingabringu með slatta af Chicken and steak kryddi og Svörtum pipar frá Santa Maria. Notaði ca. 1/2 msk af olíu til að pensla aðeins bringurnar.

Með bringunum var ég með bakað grasker: ég afhýddi það, skar niður í sneiðar og setti á bökunarpappír. Penslaði með smá olíu og kryddaði með herbamare og pipar. (báðum megin).

Setti graskerið inní ofn á 200 og ca. 15 mín síðar setti ég kjúklingabringurnar (set þær líka á bökunarpappír - mér leiðist uppvask).

Skar niður vínber og smá gúrku og blandaði við ca 2 lúgur af sallati. Bætti smá feta útí.

Þetta bar ég fram með kotasælu sem ég pipraði rosalega vel.

Rosalega góð og þægileg máltíð. Ég elda alltaf nóg til að eiga daginn eftir til að spara mér smá tíma í eldhúsinu. Jafnvel þó það sé uppáhalds staðurinn minn í húsinu.

Vonandi prófið þið og smakkast vel.

Þangað til næst.

xoxo




Sunday, February 24, 2013

Konu- og óskarsverðlaunadags brönsj.





Ég fékk skemmtilega bón í síðustu viku um að birta með reglulegu millibili matarpistla á vefinn Innihald.is sem er rosalega flottur vefur um málefni líðandi stundar. Ég mun halda áfram að blogga hér, enda tilgangurinn fyrst og fremst með þessu bloggi að halda utan um uppáhalds uppskrfitirnar mínar á einum stað. Ég er auðvitað mest ánægð að heyra af vinkonum og vinum sem geta nýtt þetta líka. 

Ég er auðvitað bara áhugakvendi og matarpervert af hjarta og sál og veit hvað er gott á bragðið. Þannig að vonandi hneyksla ég enga atvinnumenn með amatúrheitum.

Dagurinn verður æði. Konudagur OG óskarsverðlaunin í kvöld. Á konudaginn eru allir strákar sem ég þekki góðir og kurteisir og fínir - enda allir piltarnir mínir fyrirmyndamenn.  Í kvöld er síðan  rauði dregillinn og allt fræga og fína fólkið að flissa saman í fallegum fötum. Ég er búin að sjá lang-flestar tilnefndu myndanna en einhverjar á ég inni. Ég ætla að twittera eins og óð í dag, kvöld og nott um myndirnar, tískuna og síðast en ekki síst Seth MacFarlane sem verðua að stjórna hátíðinni í fyrsta skipti. Hann er faðir Family Guy sem eru þættir í miklu uppáhaldi á þessu heimili. Ég er á Twitter undir @majae - reyndar var ég bara að bursta rykið af twitter accountinum mínum en ég ætla að gera aðra tilraun til að detta í menninguna þar.

Þegar ég vaknaði í í faðmlögum við Maccann setti ég Zeppelin á fóninn og ákvað að skoða hvað ég gæti mixað saman í eldhúsinu. Lög eins og Tangerine, Fool in the Rain og Going to California fara afskaplega vel með konudagsbrölti. Sérstaklega Going to California sem er í miklu uppáhaldi þessa dagana. 

Almennt þá forðast ég hveiti, sykur og sterkju í mínu matarræði. Stundum bregð ég útaf vananaum og í dag er sá dagur. Um helgar geri ég yfirleitt alltaf Hafrapönnsurnar mínar en ég ákvað að nýta þetta heilhveiti sem ég átti uppí skáp. Held það væri sniðugt líka að nota spelt ef það er til. (yfirleitt er alltaf hægt að skipta út spelti eða heilhveiti bara út fyrir hvítt hveiti (sem er frá djöflinum) án þess að það komi niður á bragði. Á þetta bæði við afmæliskökur og brauðbakstur.)

Þessi skammtur ætti að duga fyrir fjóra stóra menn eða 3 einstæðar mömmur með eitt barn hvor.

Þar sem ég var að búa til uppskrift jafn óðum og hún varð til þá urðu pönnsurnar ekki jafn margar og ættu að vera en ég gleymdi að setja egg út í fyrstu þrjár. Fannst vanta smá sætindi í næsta smakki og svo klúðraði ég smá meira og þannig koll af kolli. Niðurstaðan er samt þessi, og þó ég segi sjálf frá, að þetta eru ljómandi góðar amerískar heilhveitipönnsur í hollari kantinum.

Best er að setja bara þurrefnin saman í skál og svo hræra mjólkinni útí rólega (til að það myndist ekki kekkir) og svo sulla restinni af blauta dóteríinu útí. Ég nota ekki smjör eða olíu þegar ég er að setikja heldur nota ég Pan Am sprey. Þeir sem vilja meina að eiturefnin í því séu verri heldur en kaloríurnar í olíunni/smjörinu mega fara eitthvert annað því ég hlusta ekki á svona vitleysu. Eða finna almennileg rök fyrir því á internetinu og senda það á tölvupósti á: idontcare@gohome.is


Uppskrift:

2,5 dl hveiti 
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt 
3 dl létt mjólk 
2 msk ólive olía
1 egg
1/2 - 1 tsk agave sýróp 
1/2 tsk vanilludropar
1/3 tsk sítrónudropar



Það elska allir beikon. Í tilrauneldhúsi Maríu gerði ég samt beikon sallat um daginn sem var svo rooooosalega vont að mig hryllir enn við tilhugsuninni við að borða beikon. Þannig að ég steikti tvær skinkusneiðar sem ég skar í strimpla. Það kom ljómandi vel út. 


Með því lét ég fylgja steikt egg (sleppti saltinu og steiki eggið báðum megin, því það er betra (finnst mer)), brytjaði niður epli, banana, vínber og jarðaber. Síðan fylgdu einnig með nokkrar sneiðar af 17% sveitaost - sem er rosalega góður. Það hefði ekki verið leiðinlegt að eiga Camambert eða annan góðan ost. 

Þetta ber ég fram með Caffe Latte að hætti hússins með sykurlausu vanillusýrópi og haug af ást. 

Njótið dagsins og áfram Django Unchained !! Jú og konur. 











Wednesday, February 20, 2013

Poppást

Það er fátt betra hjá okkur krónprinsinum heldur en að poppa gamaldags popp í potti og horfa á góða ræmu. Við erum reyndar bæði vandræðalega heimakær og finnst afskaplega gott að kúra með dýrahjörðinni. Mánudagskvöld eru t.d. uppáhalds kvöldin okkar í seinni tíð.  Mæli ég með að setja skemmtilega hefð á mánudagana sem geta oft verið pínu erfiðir ef helgin hefur verið vel nýtt.



Það er ekki sama hvernig maísbaunir maður notar. Þótt ótrúlegt megi virðast. Orville poppið er lang best og fær það fullt hús stiga. Það bæði poppast betur maís-inn (verða ekki afgangsbaunir eins og ef maður notar Maxi-poppbaunirnar eða þessar í grænu pokunum) OG poppið verður mjúkt. Hart popp er ekki gott popp. Það er nauðsynlegt að nota Maxi-poppsalt að mínu mati og gildir reglan um 2 msk olíu á móti 1 dl af popp maís. Muna að hita olíuna vel áður en baunirnar fara útí. Sá skammtur dugar fyrir okkur krónprinsinn og er hægt að margfalda, stækka og minnka eftir hentugleik. Afgang af poppi þarf ekki að henda heldur má setja í poka og japla á daginn eftir.

Ég hef alltaf verið hrifin af krydduðu poppi og hef ég gert allskonar tilraunir eftir að ég smakkaði fyrst kryddað popp á uppáhalds veitingastaðnum mínum RUB23.

Þetta eru reyndar engin geimvísindi en ég mæli með að prófa þetta. Þetta getur verið bæði skemmtileg tilbreyting fyrir saumaklúbbinn eða öðruvísi nasl á undan mat í matarboði. Man eftir einum kandídat í Masterchef hjá meirstara Ramsey sem útbjó mjög hipp og kúl forrétt þar sem kryddað popp kom við sögu. En það er svosum önnur saga.

Ég hef, eftir þónokkrar tilraunir fundið blöndu sem mér finnst mjög góð. En auðvitað notar maður bara krydd eftir smekk.

Ég myndi segja þetta vera fínan skammt fyrir einn (maður er ekkert að gúffa í sig þessu poppi líkt og með venjulegt, heldur er þetta meira tilbreytingin og smakkið).





Uppskrift: 

2 bollar poppað poppkorn.
2 msk olía (eða brætt smjör)
1/2 tsk chili duft
1/2 tsk poppsalt frá Maxi
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk lemon & herb krydd frá Mccormic
1/4 tsk onion krydd
1/4 tsk hvítlaukskrydd.
Kryddum og olíu blandað saman. Poppinu dreyft á bökunarplötu og olúsullið látið dreypa yfir (og velt svo aðeins til á plötunni).





Síðan fer þetta inní ofn á 170 í 10 mín ca.

Verði ykkur að góðu.







Sunday, November 11, 2012

Hollt döðlu og kókos konfekt


Instant súpur hafa verið undirstaða matarræðis okkar erfingjans síðustu vikur. Hef ekki verið heima hjá mér síðustu helgar þar sem tónlistargleði hefur átt hjartað mitt á m.a. Akureyri að hlusta á Dúndurfréttir og Airwaves þar sem augu mín og hjarta opnuðust þegar ég sá brjálæðislega góða tónlistarfólkið okkar. 

Þegar myrkrið og snjórinn kemur er erfitt að finna taktinn og rífa sig úr sófanum en fyrsta skrefið er að búa  til góðan playlista. Slökkva á sjónvarpinu og standa upp. Það virkar – án gríns.
Á meðan ég gekk frá sumarhúsgögnunum í gær (ég veit!), náði í jólaskrautið, þreif, bakaði, eldaði og bjó til sykurlausa sultu (uppskrift kemur) þá hlustaði ég á stórfurðulega blöndu af Motown, 70´s rokki, islenskum dægurlögum og rappi. Það var stórfínt, þannig að það er frjáls tónlist með þessari uppskrift. 

Ég byrjaði á því að setja 2 dl af döðlum bleyti kvöldið áður (ætti samt að duga bara klukkutíma eða korter jafnvel ?). Átti opin döðlupoka inní ísskáp þannig að þær voru frekar harðar að ég ákvað að leyfa þeim að sósa sig yfir nótt. Ég hellti appelsínusafa yfir þær og læt þær marínerast í safanum.

Síðan byrjaði mögulega það mest pirrandi ferli sem ég hef lent í, í seinni tíð. Ég ákvað að fara ódýrt útúr þessu og henti döðlunum í matvinnsluvél til að flýta fyrir mér. Ekki gera það ! Þetta þarf að verða allsherjar mauk og því flutti ég döðluófétin yfir í blandarann sem bræddi úr sér eftir að hafa verið erfiður í alltofmargar mínútur. The little things in life. Úff. Nú ætla ég að safna mér fyrir almennilegum blandara. Þriðji blandarinn farinn yfir móðuna miklu. 

Endaði með að töfrasprota þetta þannig að úr varð þetta fína mauk.

Útí döðlujukkið blandaði ég 1 dl. af kókosolíu (fljótandi) og 2 dl af kakó (átti ekkert lífrænt bara gamaldags bökunarkakó). Að lokum setti ég útí smáááá skvettu af vanilludropum (ca 1/2 tsk) og síðan 2,5-3 dl af kókosmjöl (frá Sollu).

Þessu hrærði eg saman og rúllaði svo í litlar kúlur. 

Sumum þeirra velti ég síðan uppúr kókosmjöl og inní frysti fór þetta.

Þetta er mega ótrúlega æðislega gott og komið er nýtt uppáhalds „égdeyefégfæekkinammi“ söbstittúttið. Meiraðsegja krónprinsinn sem finnur lyktina af heilsusullinu hennar móður sinnar í mílu fjarlægð með tilheyrandi grettum og fussi - smakkaði og fannst gott. Það er ákvðinn sigur. 

Mæli með þessu fyrir þá sem vilja ekki borða ógeð en samt fá e-ð gott og verður þetta hluti af jólakonfektinu í ár. :) Þetta flokkast ekki sem jólabakstur. 

Ef þið eigið góðar uppskriftir sem ykkur langar að deila þá fagna ég gestabloggurum eða viðbót í tilraunaeldhúsið hérna á Bifröst. Ég hlakka til að baka í desember fyrir jólin en ætla að láta hvítan sykur, hvítt hveiti eiga sig. Þetta verður spennó !! 


Uppskrift:

2. dl döðlur
Dash af appelsínusafa (bleyta döðlurnar)
1 dl kókosolía
2 dl. Kakó
Vanilludropar
2,5 – 3 dl kókosmjöl
Kókosmjöl til að velta kúlunum uppí. 


Tuesday, October 23, 2012

Hveitikímspizza

Við krónprinsin elskum pizzur. Þar sem hveiti er frá djöflinum (fyrir mig) þá hef ég aðlagað uppskrift sem ég fékk hjá Ástu Kristínu, matarbloggara á hveitikími þannig að þetta er uppáhalds hversdagsmaturinn okkar.

Þetta er kannski bras í fyrstu skiptin sem þú gerir þetta en við krónprinsinn erum orðin svo sjóuð í þessu að við erum  í enga stund að rigga uppí 2 pizzur núna í seinni tíð. Ég geri hverja uppskrift fyrir sig (þ.e. mæli og blanda hvern skammt fyrir sig).Mögulega er það sérviska - en mér finnst þær bragðast betur þannig.

Ég byrja á að vikta 30 g af hveitikíminu, og kryddin fara útí ásamt ca 2 msk af vatni. Þetta er nú frekar blaut klessa en ekki vera hrædd - blandið þessu saman !

Hér hefst smá föndur sem ég lærði af Ástu Kristínu - en þú smyrð bökunarpappír (2 stk, undir og yfir) með olíu. Leggur degið á annan bökunarpappírinn og leggur hinn smurða djöfulinn ofaná deigklessuna. Því næst þrýstiru degið niður með bók, skurðbretti eða öðru handhægu. Þetta á að vera þunnt - en samt ekki þannig að þetta fari í sundur.

Þegar þetta er orðið svolítið sexy er þessu skutlað inní ofn í 5 mín (180°) og á meðan græjar þú hina pizzuna. Ég hef eldað pizzu fyrir fjóra í svona færibandastíl og það var pís of keik.

Þegar 5 mín eru liðnar þá tek ég pizzuna út, set pizzusósu, ost og oregano (MIKILVÆGT). Pizza án oregons er eins og fiskur án reiðhjóls ? Ekki sleppa því !!!

Þá er sett áleggið ofaná og ég sker allt áleggið niður í litla bita og set mikið af því. Ég er mjög hrifin af lauk en fyrir þá sem eru í rómantíkinni - þá kannski slökum við aðeins varðandi laukskammastærðina.

Þegar áleggin eru komin ofaná þá er smá ostur yfir allt saman og pipar yfir (MIKILVÆGT). Bakað síðan í 15-20 mín á 180-200°(þangað til allt orðið brúnt og crispy).

Fáráðlega hollur og góður kvöldmatur og í miklu uppáhaldi hérna hjá okkur í Jaðarselinu.


Uppskrift (1 skammtur):

30 g. hveitikím (hveitikímið er geymt inní kæli hjá grænmetinu).
1/2 msk ca chili duft,
1/2 msk hvítlauksduft
1/2 msk pipar
1/2 msk oregano
Pepperoni,
skinka
sveppir
laukur
og allt það sem hugurinn girnist.


Þetta er borið fram með kotasælu. !!


































Á morgun er ég að fara að gera tilraun á rétt sem ég fann á vef morgunblaðsins og ég er ógeð spennt - enda náttfatapartí hjá stúlkunum mínum hér á Bifröst. Við hötum það ekki.