Sunday, November 11, 2012

Hollt döðlu og kókos konfekt


Instant súpur hafa verið undirstaða matarræðis okkar erfingjans síðustu vikur. Hef ekki verið heima hjá mér síðustu helgar þar sem tónlistargleði hefur átt hjartað mitt á m.a. Akureyri að hlusta á Dúndurfréttir og Airwaves þar sem augu mín og hjarta opnuðust þegar ég sá brjálæðislega góða tónlistarfólkið okkar. 

Þegar myrkrið og snjórinn kemur er erfitt að finna taktinn og rífa sig úr sófanum en fyrsta skrefið er að búa  til góðan playlista. Slökkva á sjónvarpinu og standa upp. Það virkar – án gríns.
Á meðan ég gekk frá sumarhúsgögnunum í gær (ég veit!), náði í jólaskrautið, þreif, bakaði, eldaði og bjó til sykurlausa sultu (uppskrift kemur) þá hlustaði ég á stórfurðulega blöndu af Motown, 70´s rokki, islenskum dægurlögum og rappi. Það var stórfínt, þannig að það er frjáls tónlist með þessari uppskrift. 

Ég byrjaði á því að setja 2 dl af döðlum bleyti kvöldið áður (ætti samt að duga bara klukkutíma eða korter jafnvel ?). Átti opin döðlupoka inní ísskáp þannig að þær voru frekar harðar að ég ákvað að leyfa þeim að sósa sig yfir nótt. Ég hellti appelsínusafa yfir þær og læt þær marínerast í safanum.

Síðan byrjaði mögulega það mest pirrandi ferli sem ég hef lent í, í seinni tíð. Ég ákvað að fara ódýrt útúr þessu og henti döðlunum í matvinnsluvél til að flýta fyrir mér. Ekki gera það ! Þetta þarf að verða allsherjar mauk og því flutti ég döðluófétin yfir í blandarann sem bræddi úr sér eftir að hafa verið erfiður í alltofmargar mínútur. The little things in life. Úff. Nú ætla ég að safna mér fyrir almennilegum blandara. Þriðji blandarinn farinn yfir móðuna miklu. 

Endaði með að töfrasprota þetta þannig að úr varð þetta fína mauk.

Útí döðlujukkið blandaði ég 1 dl. af kókosolíu (fljótandi) og 2 dl af kakó (átti ekkert lífrænt bara gamaldags bökunarkakó). Að lokum setti ég útí smáááá skvettu af vanilludropum (ca 1/2 tsk) og síðan 2,5-3 dl af kókosmjöl (frá Sollu).

Þessu hrærði eg saman og rúllaði svo í litlar kúlur. 

Sumum þeirra velti ég síðan uppúr kókosmjöl og inní frysti fór þetta.

Þetta er mega ótrúlega æðislega gott og komið er nýtt uppáhalds „égdeyefégfæekkinammi“ söbstittúttið. Meiraðsegja krónprinsinn sem finnur lyktina af heilsusullinu hennar móður sinnar í mílu fjarlægð með tilheyrandi grettum og fussi - smakkaði og fannst gott. Það er ákvðinn sigur. 

Mæli með þessu fyrir þá sem vilja ekki borða ógeð en samt fá e-ð gott og verður þetta hluti af jólakonfektinu í ár. :) Þetta flokkast ekki sem jólabakstur. 

Ef þið eigið góðar uppskriftir sem ykkur langar að deila þá fagna ég gestabloggurum eða viðbót í tilraunaeldhúsið hérna á Bifröst. Ég hlakka til að baka í desember fyrir jólin en ætla að láta hvítan sykur, hvítt hveiti eiga sig. Þetta verður spennó !! 


Uppskrift:

2. dl döðlur
Dash af appelsínusafa (bleyta döðlurnar)
1 dl kókosolía
2 dl. Kakó
Vanilludropar
2,5 – 3 dl kókosmjöl
Kókosmjöl til að velta kúlunum uppí. 


Tuesday, October 23, 2012

Hveitikímspizza

Við krónprinsin elskum pizzur. Þar sem hveiti er frá djöflinum (fyrir mig) þá hef ég aðlagað uppskrift sem ég fékk hjá Ástu Kristínu, matarbloggara á hveitikími þannig að þetta er uppáhalds hversdagsmaturinn okkar.

Þetta er kannski bras í fyrstu skiptin sem þú gerir þetta en við krónprinsinn erum orðin svo sjóuð í þessu að við erum  í enga stund að rigga uppí 2 pizzur núna í seinni tíð. Ég geri hverja uppskrift fyrir sig (þ.e. mæli og blanda hvern skammt fyrir sig).Mögulega er það sérviska - en mér finnst þær bragðast betur þannig.

Ég byrja á að vikta 30 g af hveitikíminu, og kryddin fara útí ásamt ca 2 msk af vatni. Þetta er nú frekar blaut klessa en ekki vera hrædd - blandið þessu saman !

Hér hefst smá föndur sem ég lærði af Ástu Kristínu - en þú smyrð bökunarpappír (2 stk, undir og yfir) með olíu. Leggur degið á annan bökunarpappírinn og leggur hinn smurða djöfulinn ofaná deigklessuna. Því næst þrýstiru degið niður með bók, skurðbretti eða öðru handhægu. Þetta á að vera þunnt - en samt ekki þannig að þetta fari í sundur.

Þegar þetta er orðið svolítið sexy er þessu skutlað inní ofn í 5 mín (180°) og á meðan græjar þú hina pizzuna. Ég hef eldað pizzu fyrir fjóra í svona færibandastíl og það var pís of keik.

Þegar 5 mín eru liðnar þá tek ég pizzuna út, set pizzusósu, ost og oregano (MIKILVÆGT). Pizza án oregons er eins og fiskur án reiðhjóls ? Ekki sleppa því !!!

Þá er sett áleggið ofaná og ég sker allt áleggið niður í litla bita og set mikið af því. Ég er mjög hrifin af lauk en fyrir þá sem eru í rómantíkinni - þá kannski slökum við aðeins varðandi laukskammastærðina.

Þegar áleggin eru komin ofaná þá er smá ostur yfir allt saman og pipar yfir (MIKILVÆGT). Bakað síðan í 15-20 mín á 180-200°(þangað til allt orðið brúnt og crispy).

Fáráðlega hollur og góður kvöldmatur og í miklu uppáhaldi hérna hjá okkur í Jaðarselinu.


Uppskrift (1 skammtur):

30 g. hveitikím (hveitikímið er geymt inní kæli hjá grænmetinu).
1/2 msk ca chili duft,
1/2 msk hvítlauksduft
1/2 msk pipar
1/2 msk oregano
Pepperoni,
skinka
sveppir
laukur
og allt það sem hugurinn girnist.


Þetta er borið fram með kotasælu. !!


































Á morgun er ég að fara að gera tilraun á rétt sem ég fann á vef morgunblaðsins og ég er ógeð spennt - enda náttfatapartí hjá stúlkunum mínum hér á Bifröst. Við hötum það ekki.

Thursday, October 18, 2012

Auðveldur og fljótlegur kjúklingaréttur sem gleður hjartað.

Þetta er einn uppáhaldsrétturinn minn sem er reyndar flokkað undir spari hjá mér, nammidagsréttur ef svo má að orði komast. Kús kús og sósan í honum eru ekki óhollar pörseij – en þegar þú ert að reyna að losa þig við áralangan vetraforða þá er betra að nýta sér svona sull á hátíðardögum/laugadögum. Ég er að trappa mig niður eftir vitabarsborgarnn í gær og því leyfi ég mér svona veislu á fimmtudegi. Heróínfíklar fá t.d. morfín þegar þeir eru að rétta sig af.

Ég fékk uppskriftina af þessu hjá Guðrúnu Björg sem fékk hana hjá Marín á þeim tíma þegar þær unnu með mér á Bibbz. (Júdasar) – Reyndar er uppskriftin mögulega e-ð öðruvísi en þetta er svona meira og minna frá þeim stöllunum.

Þetta er fínn réttur fyrir 4 meðal-mat-granna. (konuhlutföll) og mæli ég með set-listanum af celibration day tónleikum Zeppelin með þessum rétt.


Maður byrjar á því að skera niður 3 bringur (600 gr), það er vel hægt að leika sér með hlutföllin og klæða stakk eftir vexti.  Steikir þær og ég sulla kryddum útá, kjúklingakryddi, maldon og pipar t.d. Ég er mjög sérstök varðandi matinn minn og ég vill hafa hann smátt skorinn. Í höfðinu á mér er maturinn betri á bragðið þannig. Trust me.

Á meðan það brúnast er fínt að hita vatn og græja kúskús-ið. (upplýsingar aftan á pakka, ég nota einn poka líkt og ég keypti núna (e-ð voða fansí með sólþurrkuðum og allskyns gúmmulaði útí) ef ég er með venjulegt kús kús miða ég við fyrir 3-4). Fínt er að nota olíuna úr fetaostinum útá kús kús-ið. Áhugavert væri að gera tilraun með bankabygg líka ?

Hræra í kjúklingnum smá.

Skera niður rauðlauk – ég vill hafa mikið af rauðlauk og því nota ég heilan. Þeir sem vilja fara í sleik síðar um kvöldið mega minnka laukmagnið.

Þar sem krónprinsinn var að borða með mér hafði ég lítið af sólþurrkuðum. Skar þá niður í nifteindir (3-4 stykki) og blandaði útí. Hann mun aldrei vita af því, múahahahhaha. Annars fer ég heldur frjálslega með sólþurrkuðu þegar hann borðar ekki - því meira því betra - fer eftir sköpum og stund.

Þá ætti kjúklingurinn að vera orðinn brúnn og fínn og því upplagt að setja Blue Dragon Satey sósuna (ég elska þessar vörur, það er allt gott sem kemur frá bláa drekanum) út á pönnuna og hita hana aðeins. Ég bæti almennt grískri eða sýrðum (5%) útá, 2 msk til að drýgja sósuna. Gleymdi að kaupa slíkan varning í bónus þannig að ég var ekkert að bæta útí. 

Síðan kemur það skemmtilega – sullar öllu kjúklina-sósu-gumsinu í skál, kús-kús útí, spínat næst, þar næst, fetaostur, sólþurrkaður og rauðlaukur. Hrærir saman án þess að fórna spínatinu í of miklar klessur.


Þetta er borið fram með ást og hamingju

 *Ég hef reyndar stundum splæst smá smyrslu af smjöri yfir Fitty brauð, ost yfir það, smá olíu ofaná ostinn og hvítlauksduft yfir það og inní ofn á blástur í 10 mín ca. Eða ef þið eruð grand – mögulega hvítlauksbrauð sem keypt er útí búð. Ég tími ekki kaloríunum mínum í slíkt núna í meistaramánuði og því sleppi ég brauðinu enda stendur þessi réttur alveg vel einn.

Uppskrift: 

3 bringur (600 gr) 
Spínat myndi skjóta á 30-40 g. 
Salt, pipar og kjúklingakrydd. 
Sólþurrkaðir tómatar (notaði 3-4 en fer eftir smekk manna) 
Feta ostur. Ég er forfallinn feta-sjúklingur og notaði því heila dollu (og skammast mín ekkert fyrir það) 
Rauðlaukur (hálfur) 
Blue Dragon satey sósa.

Skál í kjúlla xoxo


Saturday, September 29, 2012

Hafra-pönnukökur (án hveitis)

Á hverjum morgni fæ ég mér hafragraut með rúsínum, kanil og mjólk. Þetta finnst mér góður morgunmatur sem heldur mér gangandi lengi. (1dl hafrar + 2 dl vatn dash salt).

Í dag langaði mig að breyta af vananum. Krónprinsinn í borginni þannig að mig langaði að gera vel við mig. Eftir mikið gúggl ákvað ég að gera tilraun sem heppnaðist mjög vel og þetta verður gert aftur. Ekki spurning.

Miðað við þessa uppskrift og að maður gerir pönnsurnar í svona "amerískum stíl" þá eru þetta 6 stykki. Ég fékk mér 3 stykki, gúrku, papriku, ost og skinku og ég er vel södd. Þannig að þetta ætti að duga vel fyrir tvo - þessi uppskrift. Svo er auðvitað hægt að skrambla egg og steikja beikon og gera þetta keppnis.


Fyrst tók ég 1,5 bolli af höfrum og skellti þeim í blandaran til að dufta þá aðeins upp. Setti í skál með 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk. salt, 1/2 tsk. kanill.

Í sér skál fór svo 1 bolli af léttmjólk, 1/2 tappi vanilludropar, 1 tsk. agave (má sleppa - mig langaði bara í e-ð sætt) og 1 egg. Þessu er bætt útí þurrefnin

Gott er að láta deigið sitja aðeins á meðan pannan er hituð og þá er einmitt fínt að ganga frá. ;)

Hitaði pönnuna svo vel, spreyaði með pan am og  hellti ég deiginu útá pönnuna og steikti þar til girnilegt.

Dásamlega gott og tók rétt tæplega 20 mín og mæli ég með Jim Morrison og vinum í Doors með þessari blöndu. xoxo.

Uppskrift: 

1,5 bolli af höfrum (hakkaðir í blandara)
1/2 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk kanill
1 bolli mjólk
1 tsk. agave (má sleppa)
1/2 tappi vanilludropar
1 egg.



Saturday, September 22, 2012

Fylltar paprikur með kjúkling og grænmeti

Laugadagur til Lukku ?

Eftir gærkvöldið sem ég eyddi í glamúr og glimmeri á Norðurpólnum með góðum vinum varð kvöldverðurinn vegna tímaskorts pylsa með öllu kl 00.30 því öskraði líkami minn á hollan mat.



Ég hef áður fyllt papriku og fundist það afskaplega gott en eins og oft áður þá fer ég inní eldhús og smíða e-ð sem mér finnst gott og man enga uppskrift en hingað til hef ég notað kús kús og ætla ég að breyta því núna. Ég vona að þetta verði jafn gott og áður.

Tónlist hússins var Pink Floyd - enda besta hljómsveit sem uppi hefur verið.


Ég átti 2 eldaðar kjúklingabringur inní ísskáp sem ég ofnabakaði og var undirstaðan að þessum rétti, jú og paprikan auðvitað.  Ég tek alltaf til hráefnin sem ég nota og geng frá þeim um leið og ég er búin að nota þau. Síðan finnst best að vera með ruslatunnu við eldavélina þegar ég er að bardúsa. Ég byrjaði á því að saxa niður hálfan lauk og mýkja á pönnu ásamt einu hvítlauksrifi sem ég saxaði smátt. Notaði eins og 1 tsk af olíu Ég skar síðan niður 3 stilka af brokkolí (ég á alltaf frosið brokkolí inní frysti enda borðum við krónprinsinn það mjög oft ofnbakað ásamt graskeri, lauk, smá olíu (ásamt kryddi (uppskrift kemur síðar)). Brokkolí-ið fékk að fjúka útí ásamt 1/2 dós af Huntz (niðursneiddum) tómötum   með basilikku og lét þetta malla í smá stund.
Kryddaði með chili kryddi, þurrkuðum kóríander, pipar og smá Maldon salti. 
Lét þetta malla í smá stund á meðan ég útbjó pizza-brauð fyrir krónprinsinn 
og vin hans. Ég skil ekki alveg konseptið föstudags-pizza sem flokkast í 
mínum aðhaldsheimi undir e-ð sem á best heima á laugardegi 
- nema auðvitað hveitikímspizzan sem er án alls sykurs, hveiti og sterkju.
Það er önnur saga. En pizza-brauðin sem við krónprinsinn 
gerum okkur stundum á laugardögum er fittybrauð, pizzasósa, oregano, álegg (þeir vildu pepperoni og skinku) smá pizzaostur og pipar. Enda fáráðlega góð og fljótleg lausn þegar vantar e-ð fljótlegt og gott. :) Aftur að matnum. Mér fannst tómatabragðið of ríkjandi þannig að ég bætti meira af pipar, meira chili, hvítlaukskryddi og smá meira af salti útí og smakkaði þar til ég valhoppaði að ánægju yfir bragðinu.

Ég skar paprikurnar í tvennt og hreinsaði úr þeim og setti fyllinguna í. Ég var að elda fyrir einn og gerði að sjálfsögðu of mikla fyllingu þannig að þetta rúmast vel fyrir tvo. Þ.e. 2 paprikur. Ég splæsti í smá pizzaost ofaná og setti 4 bita af fetaost á hvora papriku, þetta fór í eldfast mót og beint inní ofn í 25 mínútur.

Reiddi þetta fram með kotasælu og vá hvað þetta er gott. Mæli með að allir prófi - hollt, gott og brjálæðislega æðislegt. Verði ykkur að góðu, kv. majae xoxo.

Uppskrift

2 paprikur (rauðar)
1,5 bökuð kjúklingabringa (35 mín í ofni kryddað með pipar, maldon og chicken n steak) 
3 brokkolístilkar
Huntz tómatar í dós (saxaðir) með basilikku
1/2 laukur 
1 hvítlauksrif
Krydd: Hvítlaukskrydd, Maldon, Pipar, þurrkaður kóríander og chili duft. 

Þessir borðuðu með bestu lyst undir yndislegum tónum þeirra bleiku. 











Sunday, September 16, 2012

Kjúklingasúpa úr afgöngum.

Þannig er það að haustið er komið. Þá leitar maður eftir kássum, súpum og mat sem kaninn myndi kalla "comfort food". Í kvöldmatinn á þessum ágæta sunnudegi ætla ég að búa til kjúklingasúpu en í gær heilsteikti ég kjúkling og þar sem rúmlega helmingurinn af honum er eftir þá er upplagt að nýta afgangana. Ef fjölskyldustærð yðar er meiri heldur en unglingur, 2 kettir og 1 hundur, jú og jors trúlí þá mæli ég með því að kaupa auka kjúkling þegar verslað er inn. Það er ekki meiri vinna að elda tvo kjúklinga og þetta er gott í nesti í sallöt, súpur og kássur (mun ódýrara en bringur). Mér finnst kjötið af heilum kjúkling skemmtilegra í súpur heldur en bringur. Nú hugsar þú eflaust; - en þá þarf ég að skera kjúklinginn... ohhh.  Þá er nú ágætt að vera mikill Gordon Ramey aðdáandi og horfa og skoða allt sem maðurinn gerir. Hér má sjá hvar meistarinn sker hráan kjúkling. Ég nýtti mér sömu tækni á eldaðan kjúkling - það var nú ekki aaaalveg svona klippt og skorið en hafðist á endanum og er nokkuð viss um að næsta skipti verði jafnvel betra.

Hann er næstum jafn sexy og Jeremy Clarkson.

Tónlistin yfir eldamennskunni var Led Zeppelin í tilefni þess að ég var að kaupa mér miða á Celebration Day í Háskólabíó eftir mánuð. Þetta er mjög mikilvægt atriði í eldamennskunni - tónlist (að eigin vali) verður að vera í gangi !

Fyrsta skrefið er að svissa lauk í pottinum sem súpan er gerð. Matarolía 1 msk. sett útí pott og látin hitna laukurinn útí og aðeins mýktur ásamt 2 hvítlauksrifum sem ég skar niður í þunnar sneiðar. Þegar laukurinn var orðinn mjúkur og djúsí skellti ég rúmlega 1,5 litrum af vatni (má vera meira) útí pottinn ásamt 2 kjúklingasúputeningum. Látið malla á vægum hita á meðan gulrætur eru saxaðar. Ég vill alltaf hafa grænmetið mitt smátt sakað, þannig að ég skar gulræturnar í þunnar sneiðar. Get svo svarið fyrir það að það er betra bragð af því þannig. Setti eins og 1 tsk af pipar útí þetta og 1/2 teskeið af hvítlauksdufti.

Hér sést eitt af uppáhalds-eldunarráðunum mínum þegar ég geri sósur og súpur. Það sýður ekki uppúr ef þú geymir sleifina svona.

Næst setti ég 1/2 flösku af Huntz Chili Sósu útí og bætti útí meiri pipar (ca 1/2 tsk), 1 tsk chili duft, og bætti útí það rauðum pipar, paprikukryddi 1. tsk og eins og 1/2 tsk steinselju (þurrkuð). Síðan var þetta látið malla í smá stund. Bætti einnig við 1/2 l af vatni.


Það góða við að gera súpur er að maður getur látið þetta malla og smakkað til eins lengi og maður nennir.

Næst skar ég niður papriku (notaði 1/2 papriku og sakaði smátt) og skellti því útí súpuna. Reif kjúklinginn á meðan ég talaði í símann við Bjarna minn um lífið og tilveruna.  Bætti útí "pinch" af Maldon salti (nota ekkert annað í eldhúsinu). Það fór ofaní pottinn og við tók biðin eftir Júlíu - hún var sumsé að koma úr borginni með niðursoðna tómata sem ég átti ekki á lager. Áfram mallaði súpan






Þessir eru mjög duglegir að hjálpa til í eldhúsinu.









Þar sem Júlía gleymdi að fara í Bónus greip hún fyrir mig tómata í Baulunni og þar voru bara til niðursoðnir heilir faggar. Hugsaði málið ekki alveg til enda þegar ég henti þeim útí súpuna. Því þurfti ég að veiða tómatana uppúr og saxa þá niður. Það var mjög hressandi twist. Mæli með því að muna eftir því að saxa fyrst ef þið farið í þessa tilraun með heila tómata. Setti útí 1 tsk af þurrkuðum kóríander, aðeins meiri pipar og chili og látin malla aðeins á meðan tómatarnir fengu að smjúga inní gumsið.


Súpan var dásamleg, ekta haustmatur og í hollari kantinum þó mig gruni að chlisósan lumi á slatta af sykri. Þar er t.d. hægt að spara sér hitaeiningar með að kaupa sér bragðbætta niðursoðna tómata t.d. með hvítlauk og steinselju og bæta því upp chilibragði með kryddi. Krónprinsinn fékk sér dorritos útá súpuna á meðan ég setti örlítinn sýrðan (10%). Ca. 1 tsk. Sandra kom og fékk sér að borða með okkur og hér fóru allir sáttir frá borði.

Uppskriftin: 

1. msk olía.
1 laukur
2. l vatn.
2 stórar gulrætur.
1/2 flaska af huntz chili sósu. Hægt að nota maukaða tómata í staðinn.
1/2 rifinn kjúklingur.
1/2 rauð paprika (átti hálfa síðan i sallat gerð). Vel hægt að nota meira af papriku.
1 dolla niðursoðnir tómatar (mæli með að kaupa þá saxaða).
Kryddin sem ég notaði voru: þurrkaður kóríander, þurrkuð steinselja, chili duft, paprikukrydd, hvítlauksduft, pipar og Maldonsalt.

Vona að þið njótið vel kæru vinir og munið að betra er að fara á kostum en taugum. [S. Stormsker]

xoxo. - majae.